Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 415 . mál.


Ed.

972. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988 og nr. 76/1989.

Frá minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á sex fundum og sent það til umsagnar ýmissa aðila.
    Hér er um þýðingarmikið mál að ræða sem varðar hverja fjölskyldu í landinu. Málið hefði því þurft lengri tíma og ítarlegri umfjöllun í nefndinni en raun ber vitni, ekki síst þegar haft er í huga að ekki var leitað breiðrar samstöðu við undirbúning frumvarpsins og áttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins þess ekki kost að kynna sér frumvarpið fyrr en það var lagt fram á Alþingi.
    Þó að ýmis atriði frumvarpsins séu til bóta miðað við núgildandi lög þá eru margir óvissuþættir sem orka tvímælis og ekki liggur ljóst fyrir hver áhrif þess verða á lánakerfið í heild, m.a. á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Ein veigamesta breytingin varðar skipan í húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Samkvæmt frumvarpinu bera sveitarstjórnir í landinu alfarið fjárhagslega og framkvæmdalega ábyrgð á félagslega húsnæðiskerfinu. Þess vegna ber að tryggja það með lögum að meiri hluti sveitarstjórna eigi ávallt meiri hluta í húsnæðisnefndum. Ekki náðist samstaða um það atriði í nefndinni.
    Minni hl. nefndarinnar ítrekar að nauðsynlegt hefði verið að nefndin fengi lengri tíma og ítarlegri upplýsingar til að vinna að málinu. Slíkt reyndist ekki unnt. Því treystir minni hl. sér ekki til að taka afstöðu til frumvarpsins á þessu stigi og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. apríl 1990.



Salome Þorkelsdóttir,


frsm.


Guðmundur H. Garðarsson.